Umræður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í gær um ákæru á hendur Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, sýndu svo ekki verður um villzt, að bandarískt samfélag er klofið í herðar niður. Hið sama á við um flokk repúblikana vegna þess að ljóst er orðið að nokkrir lykilmenn í þeim flokki eru fylgjandi því að ákæra fráfarandi forseta fyrir að hafa ýtt undir aðsúg að þinghúsinu fyrir skömmu með það að markmiði að tefja fyrir staðfestingu á kjöri nýs forseta Bandaríkjanna, Joe Biden.
Þessi djúpstæði klofningur í bandarísku samfélagi er ekki vandamál Bandaríkjamanna einna. Hann varðar lýðræðisríki um heim allan.
Fyrir rúmlega 80 árum voru orðin til tvö mjög öflug einræðisríki í Evrópu, þ.e. Þýzkaland Hitlers og Sovétríki Stalíns, auk fleiri einræðisríkja á borð við Ítalíu Mússólínis.
Það var íhlutun Bandaríkjamanna, sem tryggði fall nazismans í Þýzkalandi og fasismans á Ítalíu og styrkur þeirra, sem löngu síðar leiddi til falls einræðisstjórnar kommúnismans í Sovétríkjunum.
Nú er nýtt forysturíkis einræðisafla að rísa í austri, Kína, og líklegt að 21. öldin muni einkennast af nýjum átökum á milli einræðisríkja og lýðræðisríkja.
Sú sundrung bandarísks samfélags, sem fylgjast mátti með í umræðum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í gær veldur mikilli hættu fyrir lýðræðisríkin í þeim átökum sem framundan eru.
Þess vegna skiptir sú sundrung okkur öll máli.
Nýs Bandaríkjaforseta bíður gríðarlega erfitt verkefni - að sameina bandarísku þjóðina á ný - sem er forsenda þess að einræðisöflin verði brotin á bak aftur eina ferðina enn.
Innlit á þessa síðu vikuna 17. janúar til 23. janúar voru 4147 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 10. janúar til 16. janúar voru 4433 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 3. janúar til 9. janúar voru 4886 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 27. desember til 2. janúar voru 5133 skv. mælingum Google.