Líklegt er að átök séu framundan á þessu ári um stöðu Skotlands í "Hinu sameinaða konungsdæmi" á Bretlandseyjum og jafnvel Norður-Írlands líka.
Í vor fara þingkosningar fram í Skotlandi og í þeim má búast við að skozkir þjóðernissinnar fari fram á umboð skozkra kjósenda til að efna til þjóðaratkvæðis um sjálfstæði Skotlands, að því er fram kemur á RÚV.
Boris Johnson hefur að vísu talað á þann veg, að svo verði ekki en erfitt er að sjá, að hann geti nokkru um það ráðið, fái skozkir þjóðernissinnar meirihluta á skozka þinginu og umboð til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Af brezkum fjölmiðlum má ráða að órói sé líka á Norður-Írlandi og að þar geti líka dregið til tíðinda, þ.e. sameining við írska lýðveldið.
Slík breyting á Bretlandseyjum mundi hafa mikil áhrif. Það er að vísu langt um liðið frá því að Bretar misstu stöðu sína sem stórveldi á heimsbyggðinni, þótt margir þeirra neiti enn að horfast í augu við þann veruleika. Það var orðið ljóst í Súez-deilunni 1956.
En verði lokapunkturinn sá, að litla England standi eitt eftir verður grundvallarbreyting á stöðu mála í okkar heimshluta en um leið ástæða til að leggja aukna rækt við tengsl okkar við Skota enda eiga þessar tvær þjóðir margvíslegra sameiginlegra hagsmuna að gæta hér í Norður-Atlantshafi.
Innlit á þessa síðu vikuna 17. janúar til 23. janúar voru 4147 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 10. janúar til 16. janúar voru 4433 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 3. janúar til 9. janúar voru 4886 skv. mælingum Google.
Innlit á þessa síðu vikuna 27. desember til 2. janúar voru 5133 skv. mælingum Google.